Spurt og svarað

Af hverju eru færri upplýsingar frá Mánagrund?

Á Mánagrund er aðeins eitt mælitæki og það mælir brennisteinsdíoxíð (SO2).

 

Hvers vegna er munur á gröfum UST og Andvara?

Eftirfarandi fyrirspurn barst þann 9. janúar 2016:

Mig langar að forvitnast hvers vegna mælingar andvara síðasta sólarhringinn endurspegli ekki mælingar UST á Nox efnunum? Skv. ykkur er síðasti klukkutími NO2 [mun lægri]* en skv. UST fór hann vel upp í 36 í morgunn um sjöleytið.

Þarna er gestur vefsins að vísa annarsvegar í klukkustundargildi í grafi frá Helguvík og hinsvegar í graf á vef Umhverfisstofnunar sem birtir mælingar frá sömu mælistöð.

Gröf á vef Umhverfisstofnunar birta 10 mínútna meðaltöl mælinga og hægt er að fletta til baka til að skoða eldri gögn.

Á Andvara eru gögnin birt á annan hátt.  Fyrst eru 10 mínútna meðaltöl síðustu 6 klukkustunda birt, og ætti það graf að vera sambærilegt við graf á vef Umhverfisstofnunar.  En svo taka við gröf með meðaltölum yfir lengri tímabil, fyrst klukkustundargildi, svo sólarhringsmeðaltöl og mánaðarmeðaltöl.  Því lengra tímabil sem tekið er meðaltal af, því minna áberandi verða óvenju há eða lág gildi í gagnasettinu.

Ef við skoðum gildin sem klukkustundarmeðaltal frá klukkan 7-8 þann 9 janúar er reiknað út frá, þá eru þau {36,27,2,3,3,16}.  Meðaltalið af þessum gildum er 14,5.

Öll 10 mínútna meðaltöl eru aðgengileg á vefsíðunni andvari.is undir frá Gögn -> Niðurhal valmynd.

* Spurningu var breytt örlítið til einföldunar

Hvaða eining er notuð á tölugildin í csv skránum sem hægt er að niðurhala?

Allar svifryks og gasmælingar (PM, NO, NO2 og SO2) eru í einingunni µg/m3.  Hitastig er í °C, rakastig í hundraðshluta (prósentum), vindhraði og hviður í m/sek, vindátt í gráðum þar sem 0° er norður, 90° austur, 180° eru suður og 270° eru vestur.

Hvers vegna er svona mikið um neikvæð gildi?

Það er ákveðin óvissa í mælingunum, þannig að mæling upp á 30 gæti alveg eins verið 29 eða 31.  Þetta er svipað og með margar vogir sem hægt er að núllstilla, fyrir núllstillingu getur vogin sýnt neikvætt gildi.  Mælitækin eru núllstillt einu sinni í viku og í kjölfarið vilja oft koma neikvæð gildi, sérstaklega á þeim mæliþáttum sem lítið mælist af.

Þorsteinn Jóhannsson hjá umhverfisstofnun fjallaði lauslega um neikvæð gildi í mælingum á íbúafundi í Reykjanesbæ þann 14.12.2016.