Svifryk

Í andrúmsloftinu er ógrynni ýmis konar agna bæði í vökvaformi sem og í föstu formi. Stærð þessara agna er mjög breytileg, en svifryksagnir, sem hér er fjallað um, mælast í míkrómetrum (µm), en 1 µm = 0,001 mm. Yfirleitt eru agnir sem eru 10-15 µm að stærð taldar til fallryks, en þær sem undir 10 µm til svifryks. Svifryki er skipt í gróft og fínt svifryk, það grófa er frá 2,5 – 10 µm að stærð og það fína er minna en 2,5 µm. Erlendis er oft einnig talað um mjög fínt svifryk en það eru agnir minni en 1 µm. Í stórum dráttum má segja, að fínni svifryksagnir séu flestar af mannavöldum (frá bruna eldsneytis), en þær grófari frá náttúrulegum uppsprettum.

Áhrif svifryks á heilsu fólks er að mjög miklu leyti háð stærð agnanna. Fínar agnir eru heilsufarslega mun hættulegri en þær grófu, en agnir minni en 10 µm eiga auðveldara með að ná djúpt niður í lungun og geta því safnast þar fyrir. Þegar svo langt er komið, fara áhrifin alfarið eftir því hversu lengi og hversu oft persónan andar að sér menguðu lofti og hvort hættuleg efni eru í rykinu eða loða við það, t.d. þungmálmar eða PAH (fjölarómatísk vetniskolefni). Almenningur finnur þó mismikið fyrir áhrifum svifryks en aldraðir, börn og þeir sem eru með undurliggjandi öndunarfæra- og/eða hjartasjúkdóma eru viðkvæmastir.
1

Heilnæmt andrúmsloft er mikilvæg auðlind og undirstaða góðrar heilsu og velferðar. Áhrif mengaðs andrúmslofts á heilsu koma sífellt betur í ljós og eru ákveðnir hópar taldir viðkvæmari fyrir loftmengun. Þessir hópar eru meðal annars börn, einstaklingar með astma, lungna- og/eða hjarta- og æðasjúkdóma. Lítið er vitað um áhrif loftmengunar á heilsu almennings á höfuðborgarsvæðinu en nýleg rannsókn sýnir marktæk tengsl á milli notkunar á astmalyfjum og hás styrks á brennisteinsvetni og svifryki (PM10).2

Heilsufarsáhrif svifriks

Síðustu ár hefur aukin athygli beinst að svifryksmengun því rannsóknir hafa sýnt að hún er hættulegri en áður var talið. Í samantekt American Lung Association (Garrison, 2001) um niðurstöður allmargra rannsókna um áhrif svifryks á heilsu kemur meðal annars fram að sýnt hefur verið fram á tengsl svifryksmengunar og dánartíðni. Aukin svifryksmengun eykur dánartíðni og mengunin er að stytta líf fólks um tíma sem er mældur í mánuðum eða árum. Einnig hefur komið í ljós að börn eru viðkvæm fyrir áhrifum svifryks og þá sérstaklega börn sem eru með astma. Í mörgum rannsóknum hefur komið fram að fína svifrykið þ.e. minna en 2,5μm hefur sérlega slæm áhrif. Einnig hefur verið sýnt fram á að svifryksmengun veldur auknum einkennum hjá þeim sem hafa einhvern lungnasjúkdóm.

Í einni viðamestu rannsókn sem gerð hefur verið á áhrifum svifryks á heilsu og birt var í New England Journal of Medicine í feb 2007 (Miller et.al., 2007) koma fram sláandi niðurstöður. Það var rannsókn sem tók til rúmlega 60 þúsund kvenna í Bandaríkjunum. Fyrir hver 10μg/m3 af fínu svifryki (<2,5 μm) sem ársmeðaltal mengunarinnar hækkaði um á því svæði sem hver kona bjó á þá var 24{e24de141672a33b5b3560facdad4847bdddc4bacee10b39e3bd2235a4035d30f} aukning í áhættu á að fá einhvern hjartasjúkdóm en aftur á móti var 76{e24de141672a33b5b3560facdad4847bdddc4bacee10b39e3bd2235a4035d30f} aukning á að deyja úr hjartasjúkdómi. Aukning í áhættu að fá heilablóðfall var 35{e24de141672a33b5b3560facdad4847bdddc4bacee10b39e3bd2235a4035d30f} en áhættuaukning að fá banvænt heilablóðfall var 83{e24de141672a33b5b3560facdad4847bdddc4bacee10b39e3bd2235a4035d30f}. Þetta er dæmi um langtímaáhrifin.

Einnig hefur verið sýnt fram á að sólahring eftir háan svifrykstopp mælist marktæk aukning í hjartaáföllum hjá fólki eldra en 65 ára (Wellenius et.al, 2005).

Þetta orsakasamhengi svifryks við hjartaáföll og heilablóðföll hefur verið þekkt nokkuð lengi en ekki hefur verið hægt að sýna fram á nákvæmlega hvað veldur þessu. Nýleg rannsókn hefur þó sýnt fram á að aukið svifryk virðist hækka storkuþætti blóðsins (Mutlu et.al 2007).

Svifryk er skaðlegt jafnvel þótt það innihaldi ekki nein eitruð efni. Það er tilvist smárra efniskorna í lungum fólks sem veldur skaðseminni en ekki efnavirkni þeirra. Þannig geta ýmis efni sem jafnvel er óhætt að borða orðið skaðleg ef þau eru nægjanlega smágerð þannig að fólk andi þeim að sér. Hins vegar geta fylgt sumu svifryki eitruð efni sem gera það þá enn skaðlegra. 3

Mælistöðvar Orkurannsókna

Stöðugar mælingar á svifryki fara fram í mælistöðvunum Helguvík og Leirunni.  Báðar stöðvar mæla PM10 og PM2.5, en í Helguvík er PM1 einnig skráð.

Umhverfismörk fyrir svifagnir

Sólarhringsmeðaltal PM10 má vera allt að 50 µg/m3. Reglugerð leyfir 7 frávik á ári. Ársmeðaltal skal ekki vera meira en 20 µg/m3.

Ársmeðaltal PM2.5 má vera allt að 20 µg/m3.

Þessar upplýsingar eru fengnar úr Viðauka III í fylgiskjali 1 við 2. breytingu á reglugerð 251/2002.

Kornastærð

Tölur um svifryksmengun eru að jafnaði gefnar upp sem þyngd í míkrógrömmum í hverjum rúmmetra af andrúmslofti. PM10 segir til um þyngd allra agna með kornastærð minni en 10 míkrómetra í einum rúmmetra af andrúmslofti. Skilgriening á PM2.5 og PM1 er eins, nema kornastærðin er minni en 2.5 eða 1 míkrómetrar.

Ef mælistöð gefur upp PM10 gildið 50 og PM2.5 gildið 40 á sama tímabili, þá þýðir það í leiðinni að aðeins 10 míkrógrömm af rykinu eru með kornastærð sem er meiri en 2.5, því að PM2.5 er hlutmengi af PM10.

Tilvísanir

  1. „Svifryk.“ Umhverfisstofnun. Sótt 21 maí, 2016. http://www.ust.is/einstaklingar/loftgaedi/svifryk/.
  2. „Loftgæði – almennt.“ Umhverfissofnun. Sótt 21 maí, 2016. http://reykjavik.is/loftgaedi-almennt/.
  3. Jóhansson, Þorsteinn. Svifryksmengun í Reykjavík. Reykjavík: Háskólaprent, 2007. Accessed May 31, 2016. http://www.hi.is/sites/default/files/admin/meginmal/skjol/thorsteinn_johannsson_ms_ritgerd.pdf